Posted on 10 Aug, 2017

HAUSTÖNN 2017 – Á DÖFINNI

Okkur langar að byrja á því að þakka ykkur fyrir vorönnina 2017, eina stærstu og viðburðaríkustu önn dansskólans, sem endaði með afmælissýningunni Herkúles í Borgarleikhúsinu. Takk kærlega fyrir komuna allir þeir sem lögðu leið sína á sýninguna.

Nú fer haustönn Dansskóla Birnu Björns árið 2017 að ganga í garð og að vanda ýmislegt spennandi framundan, en markmið okkar er að halda áfram að vaxa, stækka og skapa framúrskarandi dansara með því að bjóða upp á vandaða og skemmtilega danstíma. Haustönn byrjar 11. september og stendur til 8. desember.

Á haustönn höldum við áfram að fagna 20 ára afmælisári skólans. Strax í fyrstu dansvikunni verður hin frábæra Chantelle Carey með masterclass í söngleikjadönsum (musical theatre). Chantelle Carey hefur unnið að glæsilegustu söngleikjauppsetningum landsins, nú síðast Bláa Hnettinum í Borgarleikhúsinu. Auk þess hefur hún séð um leikaraval (casting director) á West End. Sjálf hefur hún einnig tekið þátt í söngleikjum þar á borð við Chicago.

Okkur er einnig ánægja að tilkynna að þar sem söngleikjahópur á vorönn 2017 gekk framar vonum munum við halda áfram með slíkan hóp undir stjórn Hreindísar Ylvu Garðarsdóttur Holm, sem verður nánar auglýstur síðar.

Tæknitímar verða í boði fyrir alla nemendur 11 ára og eldri, í Vesturbæ, Kópavogi og Garðabæ. Þeir nemendur sem æfa í Hafnarfirði og Grafarholti geta sótt tæknitíma á öðrum kennslustöðum. Við hvetjum nemendur eindregið til þess að sækja þessa tíma hjá frábærum kennurum. Farið er yfir grunnatriði í jazz-tækni, gólfæfingum, horn-æfingum auk þess sem kenndar eru lyrical/contemporary/jazz-rútínur. Við viljum undirstrika mikilvægi þess að sækja þessa tíma til þess að fá sem besta menntun og ná betri skilningi á undirstöðuatriðum í dansi sem skipta miklu máli í öllum dansstílum.

Afrekshópurinn okkar verður á sínum stað, aðra hverja helgi, þar sem nemendum 15+ ára hópanna okkar gefst tækifæri á að koma saman og dansa hjá mismunandi kennurum.

Nemendaráð mun halda áfram, en við fengum frábæra reynslu af því á sl. önn. Meðal verkefna nemendaráðs var aðkoma að danstímum hjá erlendum gestakennurum og skipulagning nemendasýningar og sumarhátíðar. Í ár munum við hafa tvö starfandi nemendaráð, eldra nemendaráð skipað nemendum 15 ára og eldri og yngra nemendaráð skipað nemendum 12-14 ára. Umsóknir í nemendaráð verða auglýstar þegar önnin hefst.

Dansskólinn heldur áfram að taka við hinum ýmsu dansverkefnum þar sem nemendum gefst oftar en ekki tækifæri á að spreyta sig. Nú um næstu helgi sjá danskennarar skólans um kóreógrafíu og sviðsetningu, auk þess að dansa, á stórtónleikum á Fiskideginum á Dalvík. Í ágúst munu auk þess koma fram nemendur og kennarar á menningarnótt og svo bíðum við spennt eftir tónleikum Friðriks Dórs í Hörpu þann 9. september. Þar sjá danskennarar skólans um kóreógrafíu, sviðsetningu og dans og fjölmargir nemendur skólans munu taka þátt í þeirri uppsetningu. Í október munum við svo koma að stórtónleikum í Háskólabíói, fyrstu sinnar tegundar á Íslandi, en það eru Halloween tónleikar. Við hlökkum til að takast á við þessi fjölbreyttu og skemmtilegu verkefni og gefa nemendum okkar færi á því að taka þátt.

Dansferðin 2018 verður svo á sínum stað, en við erum einmitt að fara út með frábæran hóp í næstu viku, 14.-18. ágúst. Dansferðirnar okkar eru þannig uppbyggðar að nemendur sækja danstíma á hverjum degi. Á morgnana er 2-3 tíma program fyrir okkar nemendur, þar sem hópurinn sækir lokaðan tíma hjá frábærum kennurum. Á hverjum degi læra nemendur nýja dansstíla. Eftir hádegi gefst nemendum svo færi á að sækja opna tíma í þeim stíl sem þeir hafa mestan áhuga á. Þegar danstímum er lokið brallar hópurinn svo ýmislegt skemmtilegt saman, við forum á söngleik, út að borða, kíkjum í búðir og skoðum borgina. Við hlökkum mikið til að fara með flottan hóp út í næstu viku, en þessi dansferð er orðin að föstum lið hjá okkur á hverju ári. Umsóknir fyrir dansferðina sumarið 2018 verða opnaðar nú á haustönn 2017.

Að lokum langar okkur að nefna í haust verðum við með tvo starfandi hópa fyrir 20 ára og eldri. Annar verður í Sporthúsinu, tvisvar í viku, og hinn í Vesturbæ einu sinni í viku. Þessir vinsælu tímar bjóða upp á danspúl og –gleði sem enginn dansáhugamaður má láta framhjá sér fara!