Posted on 7 Jan, 2019

VORÖNN HEFST 14. JANÚAR

Góðan dag og gleðilegt ár!

 

Okkur hjá Dansskóla Birnu Björns langar að byrja á að þakka ykkur fyrir skemmtilega og viðburðaríka haustönn 2018, sem endaði með foreldratímum í dansdeild og uppsetningu á Annie og Fame í söngleikjadeild. Takk kærlega fyrir komuna, allir þeir sem lögðu leið sína á þessa viðburði.

 

Við hefjum vorönn 2019 mánudaginn 14. janúar en markmið okkar er að halda áfram að vaxa, stækka og skapa framúrskarandi dansara með því að bjóða upp á vandaða og skemmtilega danstíma. Að sjálfsögðu verður söngleikjadeild enn á sínum stað, undir stjórn Hreindísar Ylvu Garðarsdóttur Holm. Nemendur hennar munu sem fyrr leiða nemendasýninguna okkar áfram, sem verður haldin í Borgarleikhúsinu. Þema sýningarinnar og dagsetning hennar verður kynnt í upphafi annar.

 

Tæknitímar, sem hafa notið mikilla vinsælda undanfarið, verða í boði fyrir alla nemendur 11 ára og eldri, nú í Vesturbæ, Grafarholti, Kópavogi og Garðabæ. Nemendur sem æfa í Hafnarfirði eru hvattir til að sækja tæknitíma í Garðabæ. Við viljum undirstrika mikilvægi þess að sækja þessa tíma til þess að fá sem besta menntun og ná betri skilningi á undirstöðuatriðum í dansi sem skipta miklu máli í öllum dansstílum. Nemendur sem bæði eru í dansi og söngleikjadeild fá frítt í tæknitíma.

 

Öflugt nemendaráð okkar heldur áfram störfum, en á liðinni önn voru margar frábærar hugmyndir sem komu upp í nemendaráði framkvæmdar. Þar má nefna Masterclass í Lyrical dansi, námskeið fyrir danskeppnina þar sem nemendur lærðu að semja dans, hönnun á dansfatnaði sem fór í sölu fyrir jól og „pop-up-shops“ á fatnaðinum settar upp. Við þökkum okkar frábæru fulltrúum í nemendaráði fyrir vel önnin störf og hlökkum til að halda áfram að framkvæma ykkar hugmyndir á nýju ári.

 

Erlendur gestakennari er væntanlegur til okkar helgina 8.-10. febrúar og biðjum við alla nemendur að taka helgina frá. Kennarinn verður kynntur nú í janúar, nánari tímasetningar auglýstar og opnað fyrir skráningu tímanlega.

 

Dansferðin 2019 verður á sínum stað. Okkur hafa aldrei borist fleiri umsóknir líkt og nú og verður þeim svarað nú strax í næstu viku. Dansferðirnar okkar eru þannig uppbyggðar að nemendur sækja danstíma á hverjum degi. Á morgnana er 2-3 tíma program fyrir okkar nemendur, þar sem hópurinn sækir lokaðan tíma hjá frábærum kennurum. Á hverjum degi læra nemendur nýja dansstíla. Eftir hádegi gefst nemendum svo færi á að sækja opna tíma í þeim stíl sem þeir hafa mestan áhuga á. Þegar danstímum er lokið brallar hópurinn svo ýmislegt skemmtilegt saman, við forum á söngleik, út að borða, kíkjum í búðir og skoðum borgina. Við hlökkum mikið til að fara með flottan hóp út í næstu viku, en þessi dansferð er orðin að föstum lið hjá okkur á hverju ári.

 

Við hlökkum til að dansa með ykkur inn í nýja árið!